Thursday, February 20, 2014

Við eigum öll okkar tilverurétt,..


Hefur þér einhvern tímann liðið eins og þú værir staddur/stödd innan í kúlu sem þú með engu móti kemst út úr?

Þú ert búin að reyna allt sem þér dettur í hug, þú meira að segja reynir að nota þær aðferðir sem aðrir t.d. fjölskyldumeðlimir gefa þér, þú ert það örvæntingafull/fullur að þú reynir að nota þessar aðferðir sem venjulegt fólk telur að virki við þunglyndi...

Þú ferð að trúa því sem aðrir segja í kringum þig og því miður talar fólk oft um andlega veikt fólk að þau séu „letingjar“, „aumingjar“...en þar sem við erum svo mörg á þessari jörð þá eru til manneskjur sem sjá sér gott til glóðarinnar og býr sér til veikindi, það er alltaf öruggt að svo er en það má alls ekki gleyma sér í þessum hugsunum því það gæti verið manneskja við hliðin á þér sem er þannig séð að berjast við að halda lífi, hver andardráttur er manneskjunni erfiður og það er ekkert sem hægt er að sjá á henni að líðan hennar sé svona. 

Það má alveg fullyrða að þar sem ekkert er hægt að sanna að veikindi séu til staðar nema þá bara með því að hlusta á manneskjuna þá er erfiðara að meta það hvort hún sé að „feika“ vanlíðan.

Þinn nánasti aðstandandi gæti verið að eiga við svona veikindi og vegna mikillar pressu þá aðallega frá sjálfri sér þá getur þessi aðstandandi ekki sest við hliðin á þér og byrjað að tala um verkina sem þunglyndi gefur frá sér, hann á erfitt með að ýminda sér hvernig þú bregst við því sumir, alls ekki allir, hafa fordómafyrir þess konar veikindum.

Kúlan sem ég talaði um áðan er alltaf til staðar, hún gefur manni engann séns á útgönguleið þá án aðstoðar. Heimurinn fyrir utan er allur fölur, kaldur, og ógnvekjandi. 
Fólkið fyrir utan er ógn, meira að segja geta börnin manns verið ógn því manneskja sem er alvarlega þunglynd nær ekki að höndla vel börnin þegar þau eru þreytt eftir langann leik-/skóla dag. Systkinarifrildum fylgja mikil læti, öskur og jafnvel slagsmál. Fyrir alvarlega þunglynda manneskju að halda ró sinni og vera foreldrið í svoleiðis aðstæðum getur verið hrikalega óyfirstíganlegt. Þannig séð getur allt sem við kemur daglegu lífi verið virkilega erfitt fyrir alvarlega þunglynda manneskju.
-Að eiga tímapöntun hjá lækni, að þurfa fara í bankann með pappíra sem má auðveldlega skila til næsta þjónustufulltrúa getur verið virkilega kvíðaþrungið og óyfirstíganlegt. 
-Að taka upp símann og segja „hæ“ þegar hann hringir getur verið algjörlega óyfirstíganlegt. 
-Þegar barnið kemur og segist vera svangt og vill fá eitthvað að borða, getur verið mjög erfitt fyrir alvarlega þunglynda manneskju.

-Hvernig ætli þessari manneskju líði þegar hún áttar sig á því að hún getur ekki gert einföldustu hluti, getur ekki sinnt barni sínu með grunnþarfir, getur ekki aðstoðað við að halda heimilinu gangandi?

Öruggt er að þessari manneskju líður eins illa og hægt er!

-Hvernig ætlar þessi manneskja að geta tekist á við vinnu utan heimilis ef heimilið er henni ofviða?

-Er þessari manneskju óhætt að opna sig við sína nánustu og mun hún geta stólað á að fá fullann skilning og aðstoð?

-Mun hún þurfa að upplifa það nánast á degi hverjum að hún þurfi að „sannfæra“ veikindi sín? Því það er öruggt mál að alvarlegt þunglyndi er ekki hægt að rífa af eins og plástur.

Ég hef þurft að glíma við alvarlegt þunglyndi og kvíða. Ég hef frá því ég var lítil þurft að glíma við kvíðaköst, ég man eftir mér 8 ára stirðna upp fyrir framan stofugluggann og geta ekki með neinu móti stigið út fyrir og labbað í skólann, einfaldlega vegna þess að sjórinn ólgaði því það var vindur úti. Ég var óstjórnlega smeyk við vindinn og hávaða. Með aldrinum náði ég nú tökum á þessari hræðslu en það kom margt annað í staðinn en ég náði alltaf að harka þetta af mér og var hörkudugleg að mínu mati. Ég varð ófrísk af mínu fyrsta barni óvænt 21. árs, var einstæð og bjó hjá foreldrum mínum. Meðgangan gekk ekki vel þar sem ég fór fyrst af stað einungis gengin 26 vikur. Grindargliðnun var einnig að herja á mig og í samvinnu við lækna og ljósmóður var ákveðið að ég myndi hætta að vinna. Ég fór aftur að finna fyrir sterkum samdráttum þegar ég var gengin 32 vikur en með hvíld og lyfjum þá náðist að stoppa samdrættina. Svo eignast ég heilbrigða og kröftuga stúlku gengin 39 vikur og heimurinn minn var allt annar frá þeirri stundu. Ég var orðin mamma hennar. Eftir fæðingu dóttur minnar fann ég að ég var ekki sú sem ég var áður, þá meina ég að líkamlega var ég breytt eftir fæðinguna en ég leitaði mér aldrei aðstoðar vegna þessa.

Þegar Alexandra er tveggja og hálfs árs þá verð ég ófrísk af dóttur okkar Andrésar. Meðgangan með  hana gekk vel, ég náði að vinna á meðgöngunni og hún dafnaði vel. Ég eignast hana gengin 40 vikur og fæðingin gekk hratt en mjög vel og ég get ekki lýst þeirri gleði sem ég fann fyrir þegar ég horfi á Andrés með litlu dóttur okkar í fanginu, þetta var yndislegur tími. Fljótlega eftir fæðinguna þá fann ég að líkami minn hafði breyst enn meir. Daglegar athafnir verða erfiðar s.s. salernisferðir.
Ég leita mér aðstoðar vegna þessa þegar yngri stelpan er orðin 2ja ára og mér er sagt af sérfræðingi að auðvelt sé að hjálpa mér með aðgerð sem átti ekki að vera neitt mál.
En þessi aðgerð fór allt öðruvísi en í upphafi var ætlað og þurfti ég að fara viku seinna í aðra aðgerð til að leiðrétta fyrri aðgerðina en í staðinn fyrir að vera betri þá er ég komin á byrjunarreit og ef eitthvað er þá er ég mikið verri en ég var upphaflega.
Það voru gerð mistök í fyrri aðgerðinni sem orsakaði mikla verki og vandamál. Mistök sem eiga eftir að hafa áfram mikil áhrif á líf mitt og ég þarf að taka erfiðar ákvarðanir með manninum mínum um áframhaldið. 
Þetta hefur vægast sagt tekið mikið á andlegu hliðina.

Fljótlega eftir þetta þá kláraði ég námið mitt sem lyfjatæknir og fór að vinna fulla vinnu. Það má segja að ég hafi klárað hvern dag á hörkunni því í lok dags lá ég eftir með mikla verki og einnig með mikla verki á sálinni eftir allar raunirnar sem ég gekk í gegnum. Ég talaði aldrei við mína nánustu um hvernig mér raunverulega leið. 
Það var ekki fyrr en eiginmaðurinn minn gekk á mig að ég brotnaði, og ég brotnaði alveg í gegn. Ég var  komin á botninn og sá ekkert nema svartnættið. Sjálfsvígshugsanir fóru að herja á mig og ég fór að ákveða það hvernig ég myndi enda þetta allt saman. Ég var búin að sannfæra mig um að börnin mín væru betur sett án mín og að eiginmaðurinn minn myndi finna hamingjuna annar staðar en hjá mér. 
Eins og sést þá voru ranghugmyndir alsráðandi hjá mér en með góðri hjálp þá náði ég að finna kraft til að halda áfram að berjast, því hver dagur var þannig að ég var að berjast fyrir lífi mínu, að finna styrk til að halda áfram, draga andann, vakna og kyssa börnin mín bless á morgnanna áður en þær halda út í daginn sinn, bara þetta var mér erfitt.

Þunglyndi er alvarlegur sjúkdómur sem má aldrei gera lítið úr. Allir geta lent í því að upplifa þunglyndi á einhvern hátt, það er enginn óhultur því miður. Þunglyndi er sjúkdómur sem hægt er að berjast við sem betur fer en því miður þá berst hjálpin oft of seint til þeirra sem eru að berjast.
Ég þarf að minna mig á hverjum degi að börnin mín eru ekki betur sett án mín,  og að ég eigi fjölskyldu sem myndi sakna mín. Ég á tilverurétt og er mikilvæg manneskja fyrir einhverjum. Ég á sjálfri mér skilið að sigra þennan slag, ég á töluvert í land en ég berst á degi hverjum. Ég hef lofað eiginmanni mínum, fjölskyldu og sjálfri mér að gefast ekki upp.

Ég vona að með þessum pistli mínum þá nái ég til einhvers sem er að reyna draga andann.
Við þig vil ég segja; ef ég hef náð að komast hingað þá tekst þér það líka. Ég á töluvert í fullann bata og mín framtíð er óráðin, þín er það líka en saman getum við haldið áfram. Dagurinn í dag er það sem skiptir máli, hugsaðu með mér að dagurinn í dag er þrekraun sem þér tókst að klára.
Ekki gefast upp !


6 comments:

 1. �etta er eitthva� sem �g �arf l�ka a� gl�ma vi� eftir miki� einelti. �a� er miki� hugrekki hj� ��r a� skrifa um �unglyndi�. Gangi ��r vel a� vinna � �essum m�lum. :)

  ReplyDelete
 2. Sæl.
  Mikið ofboðslega ertu dugleg að skrifa þennan póst! Ég dáist hreinlega að þér og finnst þú algjör hetja! Ég er einmitt að glíma við þunglyndi líka, lélega sjálfsmynd og sjálfstraust. Á það til að berja mig niður fyrir það hvað ég sé löt þótt að það sé þunglyndið sem að er aðalástæðan fyrir framkvæmdaleysinu. Ég hef verið á þunglyndislyfjum núna í 2,5 ár og síðasta haust var skammturinn aukinn í 2 töflur á dag. Ég er líka í HAM viðtölum sem að hjálpa en samt finnst mér ég einhvernveginn vera bara flöt...lífið mitt er bara flöt lína. Hef ekki orku í neitt og kem mér ekki í neitt. Ég veit hins vegar að það er ljós við enda ganganna, gangi okkur bara öllum vel að komast þangað.

  PS. Hef fylgst með blogginu þínu í gegnum Skreytum hús síðuna. Alltaf gaman að lesa bloggin þín og þú ert góður penni! Hef samt aldrei kommentað áður en ég ákvað að láta verða af því núna þar sem ég kannast aðeins við málið. :)

  Kv. Margrét Helga

  ReplyDelete
 3. Ég var með gæsahúð allan tímann sem ég las. Ég dáist svo að þér Erla! Knúsa þig fastar þegar ég hitti þig næst <3

  Kv. Helga Eir

  ReplyDelete
 4. Úff þetta var virkilega erfitt að lesa Erla mín. ...Áfram þú! ! Þykir voða vænt um þig ♥
  kv að austan Jóhanna Smára

  ReplyDelete
 5. Takk fyrir að deila þessu með okkur og gangi þér vel í baráttunni...

  Bestu kveðjur
  Margrét

  ReplyDelete
 6. Blogging is the new poetry. I find it wonderful and amazing in many ways.

  ReplyDelete

Ertu að reyna kommenta? Hakaðu við Anonymous ef þú ert í vandræðum :-)